Ný heimasíða Félags fornleifafræðinga

Ný heimasíða Félags fornleifafræðinga hefur verið sett í loftið.

http://www.felagfornleifafraedinga.is/

Auglýsingar

Stofnun Félags fornleifafræðinga

Þann 30. apríl var stofnað nýtt fagfélag fornleifafræðinga undir nafninu „Félag fornleifafræðinga“. Ármann Guðmundsson var kjörinn formaður, Birna Lárusdóttir varaformaður, Hrönn Konráðsdóttir gjaldkeri, Albína Hulda Pálsdóttir ritari og Kristborg Þórisdóttir meðstjórnandi. Varamenn eru Sice Juel Hansen, Arnar Logi Björnsson og Ásta Hermannsdóttir. Í siðanefnd sitja Kristján Mímisson og Gavin Lucas. Á næstu vikum verða FFÍ og FÍF lögð niður og sett upp heimasíða fyrir hið nýja félag.

Áhugavert málþing á Hellissandi

Dagana 9.-10. maí er boðað til málþings á Hellissandi um verslun og útgerð við Breiðafjörð á árunum milli 1300 og 1600. Máþing þetta er haldið í minningu Ólafs Elímundarsonar sagnfræðings en hann lést árið 2003,  81 árs að aldri. Nú eru því liðin 10 ár frá andláti hans. Þeir sem boða til þessa málþings eru ritnefnd bókarað­arinnar Jöklu hinnar nýju eftir Ólaf, Þjóðgarðurinn Snæfells­jökull, Lista- og menn­ingar­nefnd Snæfellsbæjar, Þróunarfélag  Snæfellinga og Fjölbrautaskóli Snæfellinga sem varð­veitir viðamikið bókasafn sem Ólafur lét eftir sig.

Dagskráin hefst kl. 14:30 fimmtudaginn 9. maí sem er uppstigningardagur. Þá hefst við Hótel Hellissand skoðunarferð um sögu- og útsýnisstaði í nágrenninu sem tengjast umræðuefni málþingsins. Þessari skoðunarferð verður síðan fram haldið á föstudagsmorgninum kl. 10:00. Leiðsögumenn skoðunarferða verða Skúli Alex­andersson, Sæmundur Kristjánsson og Lilja Björk Pálsdóttir.

Eftir kvöldverð á Hótel Hellissandi kl. 18 sem þátttakendum býðst ef þeir óska hefst málþingið sjálft síðan kl. 19:30. Þeir sem flytja erindi þar eru Guðmundur Sæmundsson sem flytur setningarávarp, Einar Gunnar Pétursson sem fjallar um fræða­störf Ólafs Elímundarsonar, Sverrir Jakobs­son sem flytur erindið Efnahags­legar undirstöður valds í Breiða­firði á 14. og 15. öld, Lilja Björk Pálsdóttir sem fjallar um fornminjar á Gufuskálum, Helgi Þorláksson sem flytur erindi sem hann nefnir  Frá Byrstofu til Snæfellsness, Ragnheiður G. Gylfadóttir sem flytur erindið Gildi fornminja og loks Jón Eggert Bragason sem slítur málstofunni.

Gestastofa þjóðgarðsins er opin gestum málþingsins frá kl. 13-17 á föstu­deginum.  Hótel Hellissandur býður upp á gistingu með morgun­verði á góðu verði: Tveggja manna herbergi kr.  14.000 nóttin, eins manns herbergi kr. 12.000, þriðja gistinóttin frí.

(Fréttatilkynning. Nánari upplýsingar veitir Skúli Alexandersson, sími 436-6619 eða 892-4143)

MA-ritgerð: „Miðlun torfleifa, frá endurgerðum til tilgátuteikninga“

Ný MA-ritgerð í safnafræði „Miðlun torfleifa, frá endurgerðum til tilgátuteikninga“ eftir Völu Gunnarsdóttur er nú aðgengileg á Skemmunni.
Útdráttur

Ritgerð þessi er 30 eininga (ECTS) lokaverkefni til MA-gráðu í safnafræði við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands. Leiðbeinandi er Sigurjón Baldur Hafsteinsson, dósent við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands.
Mikil aukning hefur átt sér stað á fornleifauppgröftum og hafa ýmsir aðilar leitast við að miðla fornleifum á uppgraftarstað. Fornleifauppgreftir fela hins vegar í sér mikla röskun á fornleifum og oft verður lítið sem ekkert eftir við uppgrefti. Einnig hefur torf þá eiginleika að það eyðist með tímanum og varðveitist almennt illa þegar það kemur upp á yfirborðið við fornleifauppgrefti. Hefur þetta því áhrif á þá möguleika sem eru til staðar þegar kemur að miðlun torfrústanna.
Í ritgerðinni er ætlunin að varpa ljósi á mismunandi miðlunarleiðir á jarðfundnum torfhúsarústum á Íslandi og þau álitamál sem sprottið hafa upp um miðlunarleiðirnar. Hér verður fjallað um tilgátuhús, endurbyggingu rústa, yfirbyggingu rústa og forvörslu og verða tekin dæmi um þessar miðlunarleiðir. Einnig verður fjallað um þrívíddartækni og hvað hún hefur fram að færa við miðlun fornleifarústa. Þessar miðlunarleiðir hafa allar kosti fram að færa en eru ekki lausar við annmarka. Ýmis álitamál eru uppi um sérhverja miðlunarleið og verður komið inn á þau. Eitt álitamálið er varðveisla á áþreifanlegum og óáþreifanlegum menningararfi, en illmögulegt er að varðveita hvor tveggja í einni og sömu rústinni.

 

Tilkynningar um lokaverkefni

Nemendendur eru hvattir til að senda inn upplýsingar um lokaverkefni tengd fornleifafræði svo hægt sé að miðla upplýsingum um þau hér á síðunni. Sendið póst með útdrætti og tengli á ritgerðina á fornleifafraedingafelagid@gmail.com.

Reglur um veitingu leyfa til forleifarannsókna sem hafa jarðrask í för með sér.

Nr. 339/2013 11. apríl 2013
REGLUR
um veitingu leyfa til forleifarannsókna sem hafa jarðrask í för með sér.

1. gr.

Minjastofnun Íslands fjallar um og veitir leyfi til allra staðbundinna og tímabundinna fornleifarannsókna sem hafa jarðrask í för með sér í samræmi við ákvæði laga um menningarminjar nr. 80/2012.

2. gr.

Minjastofnun Íslands fjallar um leyfisumsóknir, veitir leyfi eða hafnar umsókn. Stofnunin getur krafist viðbótarupplýsinga áður en umsókn er afgreidd og áskilur sér rétt til að fallast á umsókn að öllu leyti eða að hluta. Eftir atvikum getur Minjastofnun Íslands fallist á umsókn með skilyrðum.

3. gr.

Umsókn skal skila inn á þar til gerðum eyðublöðum sem fást hjá Minjastofnun Íslands, minnst 4 vikum áður en ætlað er að rannsókn hefjist á vettvangi, en óheimilt er að hefja framkvæmdir áður en leyfi er fengið.

4. gr.

Skilmálar leyfis til fornleifarannsókna eru eftirfarandi:

 1. Leyfi til fornleifarannsókna er ekki framseljanlegt og skulu rannsóknirnar fara fram undir beinni stjórn og eftirliti fornleifafræðings þess sem skráður er sem stjórnandi. Fornleifarannsókn telst ekki lokið fyrr en gengið hefur verið frá rannsóknarstað, gripum og gögnum skilað til Þjóðminjasafns Íslands og gefin hefur verið út lokaskýrsla með niðurstöðum rannsóknarinnar.
 2. Minjastofnun Íslands áskilur sér rétt til að líta til þekkingar, reynslu og menntunar við veitingu leyfa.
 3. Leyfi til fornleifarannsókna gildir almennt í eitt ár frá útgáfudegi, en heimilt er að veita leyfi til allt að þriggja ára sbr. 2. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2012. Fornleifarannsókn skal fara fram á þeim tíma sem fram kemur í umsókninni. Ef breyting verður þarf að tilkynna breyttan rannsóknartíma.
 4. Vettvangsrannsóknir utanhúss skulu fara fram við bestu mögulegar aðstæður, svo að menningarverðmæti liggi ekki að þarflausu undir skemmdum vegna veðurs. Æskilegur tími utanhússrannsókna er frá maíbyrjun til septemberloka. Reynist nauðsynlegt að rannsaka utan þess tíma skal tryggja með viðeigandi umbúnaði að minjar skemmist ekki. Minjastaðir sem verið er að rannsaka skulu að jafnaði girtir af þannig að ekki sé hætta á að minjar skemmist af völdum dýra eða manna.
 5. Sýna skal starfsmönnum Minjastofnunar Íslands öll gögn og gripi rannsóknar æski þeir þess við eftirlit.
 6. Við vettvangsrannsóknir skal fara fram ítarleg skráning og ljósmyndun á jarðlögum, mannvistarlögum og forngripum, sem í ljós koma. Hvert atriði skal hljóta auðkenni eða númer við skráningu. Gera skal forngripaskrá yfir alla fundna forngripi á vettvangi, geta fundartíma, fundarstaðar og lýsa helstu einkennum hvers forngrips.
 7. Öll gögn og rannsóknarskýrslur skal afhenda Þjóðminjasafni Íslands til varðveislu. Meðhöndlun gagna skal vera í samræmi við reglur Þjóðminjasafns Íslands um afhendingu gagna og gripa. Öll gögn skulu vera merkt rannsóknarnúmeri Minjastofnunar Íslands og/eða safnnúmeri Þjóðminjasafns Íslands. Leyfishafi heldur afritum hjá sér. Gögn og gripi, ásamt yfirlitsskýrslu til Minjastofnunar Íslands um gang rannsóknanna á leyfistímanum, skal afhenda innan árs. Ef forvarsla gripa tekur lengri tíma skal gerð grein fyrir því við afhendingu annars efnis og afhenda gripina þegar forvörslu þeirra lýkur.
 8. Alla fundna forngripi skal afhenda Þjóðminjasafni Íslands til varðveislu, eftir forvörslu og í stöðugu ástandi, sbr. 40. gr. laga nr. 80/2012. Meðhöndlun þeirra á vettvangi og frágangur skal vera í samræmi við Leiðbeiningar Þjóðminjasafns Íslands um umhirðu forngripa og frágang sýna. Forvarsla skal hefjast strax að lokinni vettvangsrannsókn hvers árs.
 9. Öll sýni sem ætluð eru til langtímavarðveislu skal afhenda Þjóðminjasafni Íslands og skal meðhöndlun þeirra vera í samræmi við Leiðbeiningar Þjóðminjasafns Íslands um umhirðu forngripa og frágang sýna.
 10. Ekki er veitt leyfi til nýrra vísindarannsókna hafi umsækjandi ekki fullnægt kröfum Minjastofnunar Íslands um skil á útgefnu efni, gögnum og gripum og um birtingu lokaskýrslu um fyrri fornleifarannsóknir sínar, sem veitt hefur verið leyfi til.
 11. Að lokinni vettvangsrannsókn hvers árs skal skila inn til Minjastofnunar eyðublaði þar sem fram koma grunnupplýsingar um gang rannsóknarinnar það árið. Minjastofnun Íslands mun gefa út yfirlit yfir fornleifarannsóknir hvers árs sem byggir á þessum upplýsingum.
 12. Ef um þriggja ára leyfi er að ræða skal skila áfangaskýrslu undangengins vettvangstímabils áður en vinna hefst á vettvangi árið eftir.
 13. Endurnýjun rannsóknarleyfis er háð afhendingu gagna og gripa frá fyrra leyfistímabili og því að skilyrði þau sem fjallað er um í reglum þessum séu uppfyllt. Þó skal tekið tillit til þarfa rannsakenda á gögnum og gripum vegna samhengis og endanlegrar úrvinnslu rannsóknar.
 14. Leyfishafi skal birta niðurstöður rannsóknar innan fimm ára frá afhendingu gagna og gripa. Þó er heimilt að framlengja ofangreindan frest ef fullnægjandi ástæður eru fyrir hendi að mati Minjastofnunar Íslands. Senda skal Minjastofnun Íslands endurgjaldslaust þrjú eintök af öllu efni, svo sem bókum og greinum í blöðum og tímaritum, sem leyfishafi birtir um rannsóknina.
 15. Leyfishafi skal eiga fyrsta útgáfurétt um gögn og gripi í fimm ár frá lokum vettvangsrannsóknar. Sýningar um rannsóknina skulu ekki settar upp innan þess tíma án samþykkis leyfishafa rannsóknarleyfis. Eftir þann tíma skal efnið vera aðgengilegt öðrum vísinda- og fræðimönnum til rannsókna og útgáfu.
 16. Leyfishafi skuldbindur sig til að ganga vel frá rannsóknarstað milli ára og að rannsókn lokinni. Skal frágangur miða að því að varðveita sem best það, sem eftir er af minjum og að minjastaðurinn sé snyrtilegur í hvívetna. Rannsóknarstaður er í umsjón Minjastofnunar Íslands sbr. lög nr. 80/2012 og skulu allar ráðstafanir varðandi rannsóknarstaðinn að lokinni rannsókn gerðar í samráði við Minjastofnun Íslands.
 17. Vakin er athygli á 26. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 um að allir forngripir (þ.e. lausar fornminjar, einstakir hlutir, 100 ára og eldri) eru eign íslenska ríkisins. Ennfremur er vakin athygli á 36. og 45. gr. sömu laga um að eigi megi flytja úr landi sýni og gripi úr fornleifarannsóknum nema með formlegu leyfi Minjastofnunar Íslands.
 18. Fari leyfishafi ekki að greindum skilmálum eða ákvæðum laga um menningarminjar að mati Minjastofnunar Íslands áskilur stofnunin sér rétt til að afturkalla leyfið þegar í stað og krefjast afhendingar gagna og gripa til Minjastofnunar Íslands. Það sama gildir ef í ljós kemur að ekki er faglega staðið að rannsóknunum að mati eftirlitsmanna Minjastofnunar Íslands og vinnubrögð eru slík að hætta er á að heimildagildi fornleifanna glatist.

5. gr.

Reglur þessar eru settar af Minjastofnun Íslands með vísan til 36. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 og öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 411/2012.

Minjastofnun Íslands, 11. apríl 2013.

Kristín Huld Sigurðardóttir forstöðumaður.

Reglur um veitingu leyfa til forleifarannsókna sem hafa jarðrask í för með sér. á pdf formi.

Stofnfundur nýs félags fornleifafræðinga

Þá er komið að stofnfundi nýs sameinaðs fagfélags fornleifafræðinga. Fundurinn verður haldin í húsakynnum ReykjavíkurAkademíunnar í JL-húsinu, Hringbraut 121, 4.hæð, þann 30. apríl nk kl. 20.00.

Dagskrá fundarins verður sem hér segir:

1. Kosið um nafn á nýtt fagfélag fornleifafræðinga.
2. Kosið um lög hins nýja félags.
3. Kosið í stjórn félagsins.
4. Kosið í siðanefnd félagsins.
5. Önnur mál.

Eftir fundinn verður svo boðið upp á léttar veitingar og vonum við til þess að sem flestir fornleifafræðingar, sem og nemar í fornleifafræði, sjá sér fært að mæta og fagna með okkur fram eftir kvöldi.

Við þurfum svo að nefna nýja félagið okkar og biðjum því alla um að leggja nú höfuðið í bleyti og koma með tillögur.
Þá viljum við einnig hvetja fólk til að íhuga framboð til embætta í stjórn og siðanefnd sem og til embætta varamanna í stjórn. Athygli skal vakin á því að þeir einir sem lokið hafa prófi í fornleifafræði er kjörgengir í áðurnefnd embætti og að í hinni fyrstu stjórn félagsins skal þess gætt að jafnt hlutfall félagsmanna úr báðum gömlu félögunum sitji í henni sem og öðrum nefndum. Athugið að gert er ráð fyrir að ný stjórn sitji fram að aðalfundi síðla árs 2015.

Stjórnir FFÍ og FÍF

 

Fundargerð aukaaðalfundar FFÍ

Aukaaðalfundur Fornleifafræðingafélags Íslands

16. apríl kl. 20 Víkinni sjóminjasafni

Ritari fundargerðar: Albína Hulda Pálsdóttir

Eftirfarandi félagar FFÍ mættu á fundinn

Aðalfélagar: Ármann Guðmundsson, Bjarni F. Einarsson, Kristján Mímisson, Sindri Ellertsson Csillag og Albína Hulda Pálsdóttir

Aukafélagar: Björk Magnúsdóttir, Ásta Hermannsdóttir, Nikola Trbojevic, Guðbjörg Melsted, Óskar Leifur Arnarsson, Inga Hlín Valdimarsdóttir og Arnar Logi Björnsson

Tvö utankjörfundaratkvæði bárust frá Völu Björg Garðarsdóttur og Söndru Sif Einarsdóttur sem báðar eru gildir aðalfélagar.

Ármann Guðmundsson sá um fundarstjórn. Björk Magnúsdóttir og Guðbjörg Melsted sáu um að afhenda kjörseðla til þeirra sem hafa kosningarétt og telja atkvæði.

Gildir aðalfélagar sem höfðu greitt félagsgjöld fyrir kl. 16 í dag voru níu.

 1. Ármann kynnir störf sameiningarnefndarinnar, hún hittist 5 sinnum og átti þess utan mörg símtöl, tölvupósta og slíkt. Út úr þessari vinnu komu lög fyrir nýtt félag og siðareglur.
  1. Farið var yfir samninginn milli FFÍ og FÍF um sameininguna.

i.      Hverjir hefðu kosningarétt á stofnfundi? Nánast örugglega allir sem uppfylla myndu kröfur um fulla félagsaðild að nýja félaginu.

ii.      Rætt um möguleika á utankjörfundaratkvæðagreiðslu á stofnfundi nýs félags

 1. Þarf að skoða það mál betur, óljóst hvernig væri hægt að framkvæma það en mikilvægt að skoða þetta mál.

iii.      Miklar umræður um hvað gerist ef eitthvað óvænt gerist á stofnfundi nýja félagsins, lögin sem samþykkt eru á stofnfundinum verði í veigamiklum atriðum öðruvísi en það sem búið var að semja um. Samningurinn og ályktunin miðast bæði við að lög nýja félagsins og siðareglur verði í samræmi við það sem samninganefndirnar hafa unnið.

 1. Ályktun borin upp og kosið um hana. Gengið var til kosninga kl. 20.36. Kosning var leynileg. Kosningu lauk kl. 20.39. Greidd voru fimm atkvæði á staðnum og tvö utankjörfundar, samtals sjö atkvæði.
 2. Úrslitum kosninganna gerð skil. Já sögðu sjö og nei sagði enginn. Ályktunin hefur því verði samþykkt einróma.

 

 1. Næstu skref miðað við úrslit kosninganna. Ákveðið að samþykkja ályktun til að hnykkja á því sem gerist ef stofnfundur nýs félags fer ekki eins og áætlað er.

Bókun aukaaðalfundar

Fornleifafræðingafélag Íslands ályktar á aukaaðalfundi 16. apríl 2013 að ef breytingar verða gerðar á ákvæðum sem snúa að menntunarkröfum, auknum kröfum um menntun við leyfisveitingar og löggildingu á stofnfundi nýs félags fornleifafræðinga sé það brot á samningnum sem Fornleifafræðingafélag Íslands og Félag íslenskra fornleifafræðinga gerðu með sér um stofnun á nýju félagi. Ef svo fer mun FFÍ starfa áfram í núverandi mynd.

Bókunin er samþykkt af öllum fundarmönnum.

 1. Umræður: Lagt er til að stofnfundur nýs félags verði haldinn 30. apríl kl. 20 í ReykjavíkurAkademíunni og verði veitingar og húllumhæ því 1. maí er daginn eftir. Ármann minnir fólk á að það má fara að hugsa um nafn á nýtt félag sem og hvort fólk vilji bjóða sig fram í embætti.
 2. Ármann fjallar um siðareglur. Siðfræðistofnun fór yfir reglurnar og kom með nokkrar ábendingar. Nýtt félag þyrfti að halda áfram að móta reglurnar, það þarf hreinlega lengri tíma og meiri umræður um þetta mál til að reglurnar séu vandaðar og í góðri sátt.

Fundi slitið kl. 20.52.

Umræður við kaffiborðið.

• Albína lagði til að FFÍ skilaði öllum sínum gögnum inn á Borgarskjalasafn Reykjavíkur ef félagið verður lagt niður til að varðveita sögu félagsins.

• Kristján Mímisson sagði frá NordicTAG ráðstefnunni sem hefst nú á sunnudaginn.

• Rætt var um skilgreiningar á námseiningum til grundvallar við ingöngu í félagið og í tengslum við löggildingu. Viðmið HÍ við mat á erlendum einstaklingum.

• Þá voru umræður um nafn á væntanlegt félag fornleifafræðinga og um stjórnarsetu. Hvort flétta ætti saman núverandi stjórnum beggja félaganna eða tilnefna og kjósa stjórnarmenn á stofnfundi.

 

Aukaaðalfundur Fornleifafræðingafélags Íslands 16.04.2013 fundargerðin á pdf formi.

Ráðstefnan Nordic TAG haldin í 13. sinn

XIII Nordic Theoretical Archaeology Group ráðstefnan, eða Nordic TAG, verður haldin í Reykjavík dagana 21.-24. apríl. 
Í gegnum árin hefur þessi viðburður gegnt mikilvægu hlutverki í að styrkja mót norrænna fræðimanna og undirstrikað um leið hin sérstöku einkenni norrænnar orðræðu og samstarfs. Síðustu ár hafa Nordic TAG ráðstefnurnar vakið aukna alþjóðlega athygli og sækir hana nú mikill fjöldi alþjóðlegra gesta, beggja vegna Atlantsála.

Þetta er í fyrsta skiptið sem Nordic TAG heimsækir vestnorrænu jaðarsvæðin en að ráðstefnunni standa Háskóli Íslands auk þjóðminjasafna Íslands, Færeyja og Grænlands. Í tilefni þess hefur ráðstefnunni verið valið viðeigandi þema en undir fyrirsögninni Borders – Margins – Fringes: Archaeologies on/from the Edge munu meira en 100 fyrirlesarar taka þátt í framsæknum og spennandi umræðum um margs konar málefni. Mörg þeirra tengjast hugmyndinni um mörk og jaðar í víðustum skilningi þessara hugtaka, hvernig þau eru notuð í landfræðilegri, menningarlegri og félagslegri orðræðu. 

Þess ber að geta að þetta er í fyrsta sinn sem alþjóðleg fornleifafræðiráðstefna  er haldin hér á landi en hún er liður í hátíðahöldum vegna 150 ára afmælis Þjóðminjasafns Íslands. 

Forseti Íslands setur ráðstefnuna sunnudaginn 21. apríl kl. 13 með opinni málstofu í Hátíðarsal Háskóla Íslands. 
Þá flytja erindi Lynn Meskell frá Stanford háskóla í Bandaríkjunum og Kristian Kristiansen prófessor við Háskólann í Gautaborg. Fjallað verður um Heimsminjaskrá Unesco og heimsfornleifafræði. 

Miðvikudaginn 24. apríl kl. 9-12  verða pallborðsumræður í Hátíðarsal Háskóla Íslands en þar flytja erindi þjóðminjaverðir Grænlands og Færeyja ásamt forstöðumanni Minjastofnunar Íslands. Fjallað verður um menningararf á jaðarsvæðum. 

Málstofurnar 21.-og 24. apríl eru opnar öllum en nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna á www.nordictag2013.hi.is

Utankjörfundar atkvæðaseðlar vegna aukaaðalfundar FFÍ

Þeir aðalfélagar sem sjá sér ekki fært að mæta á aukaaðalfund FFÍ í Víkinni sjóminjasafni þriðjudagskvöldið 16. apríl 2013 kl. 20 geta kosið utankjörfundar með því að prenta út meðfylgjandi skjal koma til stjórnar í lokuðu umslagi merktu með nafni.

Þeir aðalfélagar sem geta ekki komið atkvæði sínu til stjórnar í eigin persónu geta prentað kjörseðilinn út og skrifað undir og sent skannað eintak til stjórnar á fornleifafraedingafelagid@gmail.com fyrir kl. 16 þriðjudaginn 16. apríl 2013.

Ef einhverjar spurningar vakna hafið samband við stjórn félagsins.

Þeir aðalfélagar sem ekki hafa greitt félagsgjöld 2012 geta lagt inn á reikning 0101-05-268166 kt. 5103993159 með skýringunni gjöld2012 og senda staðfestingu á netfang félagsins.

Utankjörfundaratkvæðaseðill

Geymslur Þjóðminjasafns opnar almenningi

Þriðjudaginn 16. apríl og fimmtudaginn 18. apríl kl. 12-14 verða geymslur Þjóðminjasafns Íslands að Vesturvör í Kópavogi opnar almenningi.

Í geymslunum eru um 350.000 gripir en aðeins brot af gripum í vörslu Þjóðminjasafns er til sýnis í safnhúsinu við Suðurgötu.

Munirnir sem geymdir eru í geymslunum eru af ýmsu tagi; munir sem fundist hafa í jörðu við fornleifauppgröft, kirkjugripir, textílar, skart, handverk, leikföng, umbúðir og ílát, verkfæri og áhöld, húsgögn og svo mætti lengi telja. Ljósmyndasafn Íslands er einnig með aðstöðu sína í Vesturvör en tæplega fimm milljónir mynda eru til á safninu en fullkomnar geymslur hýsa þessi þjóðarverðmæti.

Starfsfólk Þjóðminjasafnsins tekur vel á móti gestum að Vesturvör 16-20, 16. og 18. apríl á milli 12 og 14.

 

Verið velkomin að skyggnast bak við tjöldin!